Lög Björgunarsveitarinnar Ársæls
1. gr.

 • Nafn sveitarinnar er Björgunarsveitin Ársæll og er starfssvæði hennar Reykjavík og
  Seltjarnarnes. Sveitin er aðili að Slysavarnafélaginu Landsbjörg, landssambandi
  björgunarsveita og starfar í samræmi við markmið og stefnu félagsins.
 • Tilgangur sveitarinnar er hvers konar björgun og leitarstörf á starfssvæði sínu og utan
  þess ef óskað er.
 • Sveitin starfar í samstarfi við Slysavarnadeildina Ingólf í Reykjavík.

2. gr.

 • Félagar geta þeir orðið, sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
  1. Eru fullra 18 ára við inntöku.
  2. Eru heilbrigðir á sál og líkama.
  3. Hafa lokið nýliðaþjálfun.
  4. Hafa hlotið meðmæli hópstjóra nýliðhóps.
  5. Hafa hlotið samþykki meirihluta á aðalfundi.
  6. Hafa undirritað eiðstaf sveitarinnar.
  7. Hafa undirritað siðareglur björgunarsveitarinnar.

3. gr.

 • Sveitin skal ávallt starfrækja björgunarhópa á landi og sjó. Stjórn sveitar skal gefa út
  reglugerð sem tilgreini nánar hvaða björgunarhópar verði virkir á því starfsári.
 • Stjórnendur björgunarhópa eru kjörnir af félögum innan viðkomandi hóps og stjórn
  staðfestir stjórnendur. Stjórn getur sett stjórnendur af. Hver hópur skal skila reglugerð
  um starfsemi hópsins innan 3 vikna frá aðalfundi sveitar til samþykktar stjórnar.
 • Stjórnendur hópa ásamt stjórn sveitar mynda sveitarráð sem skal hittast a.m.k. tvisvar
  á ári, í september og janúar. Hlutverk sveitarráðs er að gera starfsdagsskrá sveitarinnar
  og mynda framtíðarsýn næsta árs.

4. gr.

 • Innan sveitarinnar skal starfrækja unglingastarf, hvort sem það er í samstarfi við aðra
  eða með rekstri unglingadeildar. Stjórn setur reglugerð um unglingastarf.

5. gr.

 • Stjórn sveitar myndar einnig stjórn Björgunarbátasjóðs höfuðborgarsvæðisins í samráði
  við stjórn Björgunarbátasjóðs Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Stjórn
  Björgunarbátasjóðsins sér um rekstur björgunarbátsins og starfar eftir lögum um
  Björgunarbátasjóði Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
 • Félagar Björgunarsveitar Ársæls sjá um mönnun á skipinu í samráði við stjórn
  Björgunarbátasjóðs höfuðborgarsvæðisins. Stjórn Björgunarsveitarinnar getur samþykkt
  að hafa hæfa utanaðkomandi sjófarendur í áhöfn björgunarbátsins ef ástæða er talin til.

6. gr.

 • Formaður sveitarinnar er stjórnandi hennar, hvort sem er við björgunarstörf, æfingar
  eða aðra starfsemi og er hann í forsvari fyrir hana gagnvart öllum aðilum. Formaður fer
  með oddaatkvæði í stjórn.
 • Varaformaður sveitarinnar er staðgengill formanns í forföllum og hefur umsjón með
  tengiliðum stjórnar við hópa.
 • Gjaldkeri sér um fjárreiður sveitarinnar og daglegan rekstur. Allar meiriháttar
  skuldbindingar skulu lagðar fyrir sveitarfund til samþykktar.
 • Ritari sveitarinnar skal sjá um ritun fundargerða og halda utan um félagatal.
 • Meðstjórnendur sinna tilfallandi verkefnum og eru tengiliðir stjórnar við hópa
  sveitarinnar.
 • Stjórn sveitarinnar skipar umsjónarmann húseigna, starfsnefndir og í önnur störf er hún
  telur nauðsynleg fyrir sveitina.
 • Stjórn sveitar hefur heimild til að ráða starfsmenn til að sinna tilfallandi verkefnum
  Formaður skal vera stjórnandi yfir umræddum starfsmönnum. Stjórnarmönnum
  björgunarsveitarinnar er ekki heimilt að sitja í stjórn SL eða öðrum aðildareiningum SL,
  Svæðisstjórn, Landsstjórn og Alþjóðasveitin teljast sem samstarfseiningar en ekki
  aðildareining.

7. gr.

 • Aðalfundur sveitarinnar er æðsta vald í öllum málum innan hennar. Hann skal halda að
  vori, eigi síðar en 31. apríl ár hvert. Skal hann boðaður með minnst 20 daga fyrirvara
  með auglýsingu á öllum reglubundnum fundar- og vinnustöðum sveitarinnar.
 • Gjaldkeri skal skila ársreikningi og umbeðnum bókhaldsgögnum til kjörinna
  skoðunarmanna reikninga eigi síðar en fjórtán dögum fyrir aðalfund.
 • Fundur er löglegur ef rétt er til hans boðað. Atkvæðisbærir á aðalfundi eru fullgildir
  félagar á útkallslistum sem mættir eru á fundarstað og þeir félagar á B-lista sem skilað
  hafa a.m.k. 40 klst. starfi frá síðasta aðalfundi, skv. skráningu í gagnagrunn sveitarinnar.
  Nýliðar hafa málfrelsi og tillögurétt.
 • Dagskrá aðalfundar:
  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar og reikningar.
  3. Inntaka nýrra félaga.
  4. Kosning formanns / gjaldkera.
  5. Kosning annarra stjórnarmanna, varaformanns, ritara og tveggja meðstjórnenda.
  6. Kosning nefnda.
  7. Kosning kjörinna skoðunarmanna reikninga.
  8. Ákvörðun tryggingagjalds.
  9. Lagabreytingar.
  10. Staðfesting á siðareglum sveitar.
  11. Önnur mál.
 • Í skýrslu stjórnar skal getið um störf sveitarinnar á liðnu starfsári, þátttöku í björgunarog
  leitaraðgerðum, æfingum, námskeiðum og aðra atburði er markverðir teljast. Einnig
  skal fylgja yfirlit yfir búnað sveitarinnar og ástand hans.
 • Þá skal stjórn sveitarinnar leggja til umræðu og samþykktar reikninga sveitarinnar á
  árinu sem er frá 1. janúar til 31. desember.
 • Allar tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn sveitarinnar 2 vikum fyrir
  aðalfund og skulu sendar öllum A-útkallsfélögum í flokkum sveitarinnar.
 • Að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir aðalfund skal stjórn sveitarinnar skipa
  uppstillingarnefnd sem í eiga sæti þrír menn. Nefnd þessi skal kanna hug sveitarfélaga til
  framboðs á aðalfundi og leggja þær fram.
 • Kjörgengi til stjórnar: kjörgengi til stjórnarmanna er að viðkomandi verði búinn að
  starfa í a.m.k. tvö ár sem A-útkallsfélagi. Kjörgengi til formanns og gjaldkera er að
  viðkomandi hafi starfað að lágmarki 4 ár sem A-útkallsfélagi.
 • Ef í kosningu fái enginn hreinan meirihluta skal kjósa aftur um þá tvo sem fá flest
  atkvæði. Formaður og gjaldkeri eru kosnir til tveggja ára í senn, þannig að annað árið er
  kosinn formaður og hitt árið gjaldkeri.

8. gr.

 • Ef stjórnarmaður hættir í stjórn ber að boða til aðalfundar eða kalla til aukaaðalfundar.
  Ef stjórnandi björgunarhóps hættir verður að halda fund innan hópsins innan tveggja
  vikna til að kjósa um nýjan stjórnanda.

9. gr.

 • Stjórn sveitarinnar skal halda sveitarfundi annan hvern mánuð á aðalstarfstímabili
  sveitarinnar frá september til maí. Ef 10 fullgildir félagar í sveitinni óska eftir sveitarfundi,
  skal óskin koma skriflega til stjórnar. Skal stjórnin halda fundinn innan 7 daga frá
  móttöku. Á sveitarfundum hafa nýliðar málfrelsi og tillögurétt.

10. gr.

 • Allir félagar sveitarinnar skulu sinna kvaðningu til björgunarstarfa tafarlaust sé þess
  nokkur kostur. Þeim ber að hlíða boðum foringja sinna og leggja sig fram við að rækja
  hlutverk sitt sem best.
 • Stjórn sveitarinnar ákveður lágmarkskröfu um mætingu í útköll fyrir hvert starfsár. Ef
  fullgildur félagi stenst ekki lágmarkskröfur skal hann færður af útkallslista á B-lista. Til að
  halda kjörgengi þurfa félagar á B-lista að skila a.m.k. 40 klst. starfi frá síðasta aðalfundi,
  skv. skráningu í gagnagrunn sveitarinnar.
 • Félagi á B-lista sem mætir umfram lágmarkskröfu um mætingar í útköll, skal færður
  aftur á útkallslista

11. gr.

 • Verði félagi í sveitinni sekur um að spilla áliti hennar út á við, valdur að stórfelldri
  vanrækslu um eignir sveitarinnar eða brýtur gegn lögum þessum, eiðstafi
  Björgunarsveitarinnar, siðareglum Björgunarsveitarinnar, siðareglum Slysavarnafélagsins
  Landsbjargar eða landslögum, getur stjórn sveitarinnar vísað honum úr sveitinni
  tímabundið eða að fullu. Honum skal tilkynnt þetta skriflega.
 • Sé ósætti um brottrekstur eða brottrekstrarsök getur viðkomandi aðili vísað málinu til
  sveitarfundar til endanlegrar afgreiðslu.

12. gr.

 • Varasjóður.
  Sveitin skal eiga varasjóð og skal innistæða hans nema upphæð sem nemur rekstri
  sveitarinnar í 1 ár. Óheimilt er að ráðstafa fé úr sjóðnum, nema með samþykki
  aðalfundar. Forsendur fyrir útgreiðslu úr sjóðnum þurfa að vera verulegt hrun í tekjum
  sveitarinnar eða fjárfesting í fasteign fyrir sveitina. Varasjóður skal varðveittur í banka
  eða hjá löggiltu verðbréfafyrirtæki. Meginstefna við vörslu hans skal vera öryggi frekar en
  há ávöxtun. Ef veitt er úr varsjóðnum skal leitast við að byggja hann upp aftur svo fljótt
  sem auðið er.

13. gr.

 • Stjórn sveitarinnar er heimilt að veita félögum heiðursmerki. Til viðmiðunar skal haft að
  eftir 10 ára starf fái félagar silfurmerki og eftir 30 ára starf fái félagar gullmerki. Merkin
  skulu númeruð og haldið utan um hver er með hvaða merki. Félagar með gullmerki
  Björgunarsveitarinnar halda öllum réttindum sínum, t.a.m. kosningarétti og kjörgengi til
  stjórnar óháð mætingu.
 • Auk þess er stjórn sveitarinnar heimilt að heiðra félaga á annan hátt, t.d. með
  þakkarskjölum fyrir vel unnin störf.

14. gr.

 • Stjórn hefur heimild til setningar reglugerða/starfsreglna til nánari útfærslu á innra
  starfi sveitarinnar. Reglugerðir/starfsreglur skulu lagðar fyrir sveitarfund til kynningar.
  Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi sveitarinnar með hreinum meirihluta
  atkvæða.
 • Lög þessi taka þegar gildi.