Tækjahópur

Meðlimir tækjahóps sjá um að manna bíla sveitarinnar bæði í útköllum og öðrum verkefnum sem krefjast aksturs. Þeir sjá einnig um viðhald á tækjunum innan þeirra marka sem mannskapur og aðstaða hópsins í Gróubúð ræður við. Engar kröfur eru um bílpróf eða akstursreynslu til að starfa með hópnum enda eru mörg önnur verkefni en að sitja undir stýri, en hópurinn kemur sér saman um lágmarkskröfur til bílstjóra á hverju og einu tæki sem hópurinn hefur yfir að ráða.

Leitarhópur

Leitarhópur er skipaður fólki sem leggur áherslu á leitarfræði og er kallaður út ,oft í samvinnu við aðra hópa, þegar leitað er að týndu fólki . Allir björgunarsveitarmenn taka grunnnámskeið í leitartækni en einnig er boðið upp á fagnámskeið í faginu þar sem farið er dýpra og nákvæmar í fræðin og er þá talað um sérhæfða leitarmenn. Leitarhópur Ársæls hefur yfir að ráða leitarkistum sem innihalda ma. leitarljós, kort, og áhöld sem þarf til sporarakninga, auk tveggja reiðhjóla sem nýtast vel t.d í verkefnum innanbæjar.

Sjúkrahópur

Sjúkrahópurinn er stoðhópur við alla útkallshópa sveitarinnar. Hann sér til þess að allar sjúkratöskur í tækjum sveitarinnar sé útkallshæfur og að keypt séu þau tæki og tól sem þarf til þess að sveitin sem vel uppfærð í öllu því sem viðkemur að meðhöndla slasaða einstaklinga. Sjúkrahópurinn sér einnig um að fyrstu hjálpar kunnátta félaga sé í góðu standi með tilheyrandi námskeiðum og æfingum.

Undanfarar

Undanfarar er hópur sérhæfðs fjallabjörgunarfólks. Þeir hafa mikla reynslu af fjallamennsku auk þess að hafa sótt sérstakt námskeið í uppsettningu á fjallabjörgunarkerfum og öðrum sérhæfðum hlutum til þess að sinna krefjandi verkefnum í fjalllendi. Undanfarar á svæði 1 (höfuðborgarsvæðið) skipa í sameiningu svokallaðan þyrluhóp, en meðlimir hans fá reglulega boð um að mæta í aðkallandi verkefni beint í skýli Landhelgisgæslunnar þaðan sem þyrla gæslunnar flytur þá beint á vettvang.

Ásgrímshópur

Ásgrímshópur sér um að manna og viðhalda björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni sem er staðsettur við gamla Slysavarnarhúsið við Reykjavíkurhöfn. Helstu verkefni sem skipið sinnir er þáttaka í stærri leitum á sjó og aðstoð við önnur skip. Ólíkt öðrum hópum sveitarinnar þurfa áhafnarmeðlimir ekki allir að ganga í gegnum 2 ára nýliðaprógram til þess að öðlast þáttökurétt en vélstjórnar- og skipstjórnarmenntaðir einstaklingar geta fengið undanþágu til að að starfa með hópnum að uppfylltum ákveðnum lágmarkskröfum.

Bátahópur

Bátahópur Ársæls hefur starfsemi sína í Gaujabúð úti á Seltjarnarnesi. Hópurinn hefur yfir að ráða bæði harðbotna bátum og slöngubátum sem nýtast vel í mis mismunandi verkefni. Allir meðlimir sveitarinnar taka grunnnámskeið í slöngubátum en þeim sem kjósa að starfa með bátahópnum býðst að taka ýmiskonar viðbótar námskeið auk þess sem gerð er krafa um atvinnuskírteini til að sigla stærri bátunum. Sem ein stærsta sjóbjörgunarsveit landsins sinnir hópurinn svo gott sem öllum gerðum verkefna sem við koma sjó, hvort sem það eru aðstoð við önnur skip, björgun úr sjó eða leitir bæði meðfram ströndum og úti á hafi.

Bækistöðvarhópur

Meðlimir bækistöðvahóps sinna ýmsum útkallstengdum verkefnum fyrir sveitina. Hópurinn mannar bakvakt sem mætir ásamt bakvakt stjórnar ef útkall kemur og starfar í bækistöð á meðan útköllum stendur við skipulag og annað sem þarf að gera á meðan restin af sveitinni er úti að sinna verkefnum.

Kafarhópur

Kafarahópurinn er stoðhópur við bátahópinn og Ásgrímshópinn. Eins og nafnið gefur til kynna starfa í hópnum kafarar sem hafa hlotið menntun í björgunarköfun sem nýtist við leitir og endurheimt. Kafarhópurinn hefur aðsetur í Gaujabúð og er vel tækjum búinn þar sem hann á bæði köfunarloftpressu til þess að fylla á súrefnistanka auk sérútbúinnar kafarakerru
fyrir allan þann búnað sem verkefni hópsins krefjast. Þetta gefur hópnum tækifæri til að vera tilbúinn mun fyrr í útköll en annars.

Fjallahópur

Fjallahópur er nýstofnaður hópur innar sveitarinnar og er einskonar tilraunarverkefni sem hefur farið vel af stað. Hópnum er ætlaða að vera einskonar millistig á milli leitarhóps og undanfara þar sem meðlimir leggja áherslu á að vinna í fjalllendi og krefjandi aðstæðum án þeirrar sérhæfingar í fjallabjörgun sem undanfarar þurfa að hafa.

Rústahópur

Rústahópurinn er hluti af Alþjóðasveit Landsbjargar sem þýðir að honum eru ákveðin skilyrði sett varðandi fjölda sem þarf að standast ákveðið þrekpróf, læknisskoðun og vera með allar bólusetningar klárar tilbúin að yfirgefa landið ef til útkalls kemur hjá sveitinni. Ekki eru þó allir meðlimir hópsins í alþjóðasveitinni, og æfir hópurinn reglulega saman sem gefur nýrri og óreyndari félögum tækifæri á að öðlast þá reynslu og kunnáttu sem til þarf til að komast í alþjóðasveitina. Fyrir utan sérhæfð rústaverkefni nýtist kunnátta hópsins vel í daglegu starfi sveitarinnar í óveðursútköllum.