Neyðarkall Björgunarmannsins

neydarkall 2015

Ég er partur af heild. 18.000 manna samfélagi ólíkra einstaklinga sem að starfa í björgunarsveitum, slysavarna- og unglingadeildum.

Þegar heiðin er lokuð og þú heldur þig heima, höldum við stundum á heiðina að hjálpa þeim sem voru ekki komnir heim.

Þegar þú ert sofandi erum við stundum úti að leita að einhverjum sem er týndur, í byggð eða uppi á fjöllum.

Þegar það er spáð norðan áhlaupi, ofanhríð og illviðri og þú tekur fram spilin, þá mætum við í hús, óumbeðin, tökum saman dótið okkar, yfirförum búnaðinn og stöndum klár ef að kallið kemur.

Þegar þú mætir í vinnuna erum við stundum að koma heim eftir að hafa verið úti alla nóttina að hjálpa fólki sem lenti í ógöngum.

Þegar þú heldur þig innandyra vegna veðurs erum við stundum úti að hjálpa fólki að komast leiðar sinnar, að fergja lausa muni eða að loka fyrir rúður sem hafa brotnað vegna foks.

Þegar flugvél lendir í vandræðum hlaupum við frá vinnu eða rífum okkur upp úr rúminu og siglum út á móti henni, alltaf, bara til öryggis.

Þegar búfénaður lendir í vandræðum vegna veðurs, þá klæðum við okkur eftir aðstæðum og höldum til leita, gröfum upp kindur eða ferjum hesta yfir ár.

Þegar þú sest niður með fjölskyldunni að borða jólamatinn, stöndum við stundum upp frá borðum og kveðjum okkar nánustu vegna þess að einhver er hjálparþurfi.

Því þegar kallið kemur, þá komum við.

Þetta er Neyðarkall okkar til þín!